Kvæðasafn Borgfirðinga

Söfn

Íslenska
Nynorsk
Esperanto

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur (cookies) eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Minni héraðsins

Fyrsta ljóðlína:Þess minnumst vér, það var á fyrri dögum,
Viðm.ártal:≈ 1900
Tímasetning:1898
Flokkur:Hátíðaljóð

Skýringar

Kvæði sungið við lagið „Hvað er svo glatt, sem góðra vina fundur“ á Þjóðminningardag Borgfirðinga og Mýramanna haldinn á Hvítárbökkum 7. ágúst 1898.
Þess minnumst vér, það var á fyrri dögum,
að vorir áar héldu fjörug mót;
vér lesum það í landsins fornu sögum;
þeir leika þreyttu, æfðu hönd og fót.
Og heiðurssveiga silkihrundir bundu
að sigurlaunum handa þeim, sem vann,
og þá var smán að grafa pund í grundu,
hver grár og lotinn karl af fjöri brann.

Svo liðu tímar, leikar féllu niður,
um langan aldur slíkt var hvergi þekt,
en nú er þessi fagri, forni siður
að fæðast aftur - það er gleðilegt.
Þótt ýmsu gömlu viljum ryðja’ úr vegi,
mót vanans afli’ og kreddum heyja stríð,
þá er það margt, sem ellin breytir eigi
og altaf gildir bæði fyr og síð.

Og það er eitt að halda fjörga fundi,
því félagsskapur gjörir kraftaverk;
hann skapar vilja, vekur þjóð af blundi,
hann veika læknar, gjörir börnin sterk;
frá eymd til sigurs lyftir þjóðum, löndum,
hann lætur börnum sæmd og fé í arf;
í trú og von því tökum saman höndum,
í trú á sigur, von um mikið starf.

Vér horfum yfir horfna frægðardaga,
er hérað þetta átti marga þá,
sem aldrei deyja’ og altaf geymir saga,
og allir hljóta þeirra verk að dá.
Það vaknar eitthvað innst í sálu vorri,
sem eggjar, hvetur, kveikir líf og þor,
og kallar: Egill, Oddur, Ketill, Snorri
á undan gengu, rekið þeirra spor!

Og hér var það, hún Helga fagra fæddist,
sú fegurst kona’ er mannlegt auga leit;
þar saklaus ást í ungu brjósti glæddist,
svo íturhrein, svo göfug, sterk og heit.
Já, þetta hérað átti auðnu tíma,
það ól upp hrausta menn og göfug fljóð,
því væri skömm að hanga, sitja’ og hýma
með hönd í vasa’, í æðum storkið blóð.