Litið til baka | Kvæðasafn Borgfirðinga
Kvæðasafn Borgfirðinga

Innskráning ritstjóra

Litið til baka

Fyrsta ljóðlína:Lífs á hausti mest ég met
Viðm.ártal:
Lífs á hausti mest ég met
minningar að ríma.
Mér ég fyrir sjónir set
svipi liðins tíma.

Þegar einn ég inni sit,
út þá hallar degi,
er mér gjarnt á yfirlit
áður farna vegi.

Heiminn borinn er ég í
undir fjalli þekku,
föður míns þar höndin hlý
hlúði að Skeljabrekku.

Er mín litu augun tvö
út í dalinn tára,
átján hundruð sjötíu og sjö
sagt var talið ára.

Marz sextánda móðir góð
mig í heiminn fæddi.
Litla soninn ljúfast fljóð
leiddi, studdi og fræddi.

Æsku vermdi auðnusól.
Átti ég býlið þekka,
hálfrar aldar æviskjól
á þér Skeljabrekka.

Þar ég æskuleiki lék,
lærði málið góða,
framdi ýmis barnabrek,
bar við smíði ljóða.

Þá var tíðum kátt um kveld,
kveðnar gamanbögur,
kyntu sálar unaðseld,
ýmsar góðar sögur.

Lærði ég reikning, lestur, skrift,
lifnaði fróðleiksneisti,
var þá andans vængjum lyft,
víða hugur þeysti.

Lærði að raka, rifja, slá,
rista torf og hringa,
hey að binda, hvetja ljá,
hlaða mó og stinga.

Gaf ég hestum, kindum, kúm,
kembdi þeim og snyrti,
þreif úr húsum skít og skúm,
skán frá sauðum hirti.

Hleypti ég vökrum gjarðaglað,
grund og slétta vegi.
Fátt mér betur fékk en það
fögnuð lífs á degi.

Svona liðu æskuár,
unaðs blíð og fögur,
þar um sorg og tregatár
teljast engar sögur.

Föður míns ég lögum laut,
lét ei annað henda,
þangað til mín þroskabraut,
þulin var á enda.

Upp til fjalla, út um sker,
ýmsu varð að sinna.
Þarna kenndi þörfin mér
það sem bar að vinna.

Hér þótt örlög græfu gröf
gengi vona, þekku,
marga lífið góða gjöf
gaf á Skeljabrekku.

Þér ég æskuást mín var,
eitt sinn hérna bundin.
Dauðinn þig í burtu bar,
beisk var raunastundin.

Þú mér vaktir dáð og dug,
drottning minna vona.
Þér ég unni af heilum hug
hjartans þekka kona.

Með þér gekk ég gæfuspor,
glaður og hress í sinni.
Hamingjunnar veglegt vor,
var í samfylgd þinni.

Hryggur vottar hugur þér
hylli þökk og lotning.
Unaðsgjafir gafstu mér,
góða hjartadrotting.

Urðu næstu árin sex,
örðug rauna glíma.
Sárt er þegar sífellt vex
sorg í langan tíma.

Þegar stærst var þörfin brýn
og þrutu gleðisjóðir
komst þú, önnur konan mín
og kyntir hjartans glóðir.

Þú mín græddir sorgar sár,
sæld og gleði veittir,
mín þú fjölmörg æviár
ótal gæðum skreyttir.

Mér þín lista vænu verk,
vöktu stolt og gleði.
Hlýju gafstu hrundin merk
hjarta sál og gleði.

Vinur sannur varstu mér
vegleg minni skarta.
Mína bestu þyl ég þér
þökk, af klökku hjarta.

Söknuð finnur sálin mín,
sem til dauðans varir.
Mér ei ykkar minning dvín,
meðan lífið hjarir.

Oft við gælir öndin klökk
ykkar gjafir þáðar.
Hafið mína hjartans þökk,
heiðurskonur, báðar.

Mínar dætur mætar tvær,
móður dáðum sinna.
Áfram lætur auðnan þær,
ættarþráðinn spinna.

Tvö og níu barna börn
bæta ættarskörðin.
Auðnan sé þeim ætíð vörn
um þau standi vörðinn.

Grána hár og bliknar brá
breytt er lífsins högum.
Margs er hægt að minnast frá
mínum ævidögum.

Lengist aldur, lamast þrá
lífsins leikur brennur,
forlaganna öldum á
ævignoðin rennur.

Aldurs merkin á mér finn,
eftir kulda og hita.
Ýmsum rúnum örlögin
æviskrána rita.

Geymi ég í muna mér
minninguna þekka.
Friður og gæfa fylgi þér
fagra Skeljabrekka.

Kveð ég blessuð blómin öll,
með bros og fegurð sína,
engi, grundir, gil og fjöll
og góðhestana mína.

Í þeim fræga álmaklið
ungur bar mitt heiti,
sá er forðum Svoldur við
sendi jarli skeyti.