Kvæðasafn Borgfirðinga

Söfn

Íslenska
Nynorsk
Esperanto

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur (cookies) eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Hestavísur: Um Bjarnastaðarauð

Fyrsta ljóðlína:Sárin blæða saknaðar.
Viðm.ártal:

Skýringar

Skráð eftir minni Jakobs Guðmundssonar Húsafelli 27. febrúar 1949.
Eigandi Bjarnastaðarauðs var Þorbjörg Pálsdóttir, ekkja sr. Jóns Hjörtssonar á Gilsbakka. Hún var miklu yngri en maður hennar. Er hann lést þurfti ekkjan að fara frá Gilsbakka. Nýi presturinn, sem var sr. Magnús Andrésson, bauð henni að velja á milli Bjarnastaða og Kolsstaða til að búa á. Þorbjörg valdi Bjarnastaði. Sr. Magnús útvegaði henni einnig vinnumann en það var ungur maður að nafni Páll Helgason frá Hrólfsskála á Seltjarnarnesi. Þau giftust síðan og eignuðust þrjú börn.
Sárin blæða saknaðar.
Sá er núna dauður,
kosti sem af blökkum bar,
Bjarnastaðarauður.

Þetta fagra faxaljón
fyrrum bar á vengi
sóknarprestinn séra Jón,
sem það átti lengi.

Lífs við enda merkismanns
minning geymist lýða
eignast náði ekkja hans
afreksjóinn fríða.

Fagran stirndi fáks á búk,
fjörs er lýsti vitnum.
Öll var húðin máluð mjúk
með sótrauða litnum.

Mjög hátt reisa makkann vann.
Mélin fjörugt tuggði.
Og á spretti hverjum hann
hesti betur dugði.

Þá var merkast þetta eitt
þjóðs sem ferða léði:
Það var eins og ekki neitt
ellin við hann réði.

Loksins þó nam lera hann
Lokafóstran gamla.
Skepna engin sköpuð kann
skapadómi að hamla.

Nú er Rauður látinn lágt
leiri hulinn jarðar.
Lifa mun þó hrósið hátt
um héruð Borgarfjarðar.