| Kvæða- og vísnasafn Árnesinga
Kvæða- og vísnasafn Árnesinga

Innskráning ritstjóra
AAAA12

Húmið fellur

Húmið fellur
á hæð og drag.
Haustkvöldið minnir
á horfinn dag.

Og máninn líður
á mjúkum skóm.
Í dálitlum skugga
er dáið blóm.

Blaðlaus kvistur
á blásnum mel.
Brotinn liggur
og báruskel.

Undir föllnu laufi
er falið spor.
Lítill stuttfótur
steig þar í vor.

Við lágan bakka
er lindin blá.
Hlustar þögul
í hljóðri þrá.

Stjarna lýsir mér
leyndan veg.
Þarna gengum við
þú og ég.

Bliknuð er sóley
við brekkurót.
Stutt eru vorsins
stefnumót.

Húmið fellur
á harðan sand.
Lítil bára
brotnar við land.

Bára sem fæðist
fellur og deyr.
Örlítil stuna.
Ekkert meir.

Utar kveður
við annan hátt,
úthafsins þunga
andardrátt.

Vofa læðist
um vík og sker.
Ískaldar stjörnur
ylja mér.