Kvæða- og vísnasafn Árnesinga
Kvæða- og vísnasafn Árnesinga

Innskráning ritstjóra

Upp skal hefja óðar þras,


Tildrög

Stóðhesturinn Ljóri frá Kirkjubæ drapst þar sem hann var með hryssuhópi sem hann gagnast skyldi  í girðingu í Hjálmholti í Flóa.
Bragurinn allur er 27 vísur. 
Upp skal hefja óðar þras,
efla stefja kóra,
raunir sefja magna mas,
mærðum vefja Ljóra.


Ljóra í bögum lýst nú skal,
lífs til sögu vandað.
Fyrir dögun fákaval,
fannst í högum andað.


Sjá má fyrir skildi skarð,
skaða í dyrum staddan,
feigðarbyrinn fór um garð,
fallinn spyr ég graddann.


Liggur jórinn látinn nár,
líkið tóru rúið.
Deyfð er stór og drungi grár,
dagsverk Ljóra búið.

Glitað faxið gæðings var,
getnaðs baks hans siður.
Ungur strax af öðrum bar,
íturvaxinn niður.


Geðið létt og lyfting há,
laus við pretti folinn,
takti réttum tölti á,
talsvert sprettaþolinn.


Allar stundir yfir grund
eins og tundur þaut´ann,
hófum undir hress í lund
hraunið sundur braut´ann.


Viljafastur var í reið,
varla hastur sýndist,
laus við kast þó legði á skeið.
Léttúðgastur krýndist.


Hálsinn reistur, höfuð frítt,
hreyfðist geyst um svæði.
Glapti freisting geðið hlýtt.
Göfug eistun bæði.


Eins og hind um Ísland þaut
Efldust skyndifundir
Ljúfra synda Ljóri naut
Lifði yndisstundir.


Merardræjur mátu vel
munaðsgræju stóra.
Kirkjubæjarkostaþel
kom af fræjum Ljóra.


Meður hertan munaðsstaf
merar erta þótti.
Lyftu þær sterti lostnar af
Ljóra snertiþrótti.


Hans að brúka hreðjasull
hryssur mjúkar birtust.
Kiðuðu búkum, klipptu gull,
kynlífssjúkar virtust.


Utan hlés sín afrek vann
útá flesjum víða.
Vindur blés úr vitum, hann
var með blesu síða.


Lof og heiður Ljóra ber.
Ljóma sneiðist hagi.
Á æðri leiði laus nú fer
sem lést úr reiðarslagi.


Lífssól sest til viðar var
valins hestasóma.
Sem af flestum fákum bar,
fékk því besta dóma.


Ill þó rættust örlög hans
er þess sætt að gæta
að merarættir mörlandans
mjög hans þættir bæta.