| Kvæða- og vísnasafn Árnesinga
Kvæða- og vísnasafn Árnesinga

Innskráning ritstjóra
AAAA12

Skúli og Clausen komu að

Heimild:Dvöl


Um heimild

Ár 1939  7.tbl.


Tildrög

 Bjarni Ásgeirsson alþingismaður og Skúli Guðmundsson þá ráðherra komu að Kirkjubæjarklaustri, ásamt fleirum.
 Bílstjóri Skúla var Arreboe Clausen. Stúlka sú er leiddi gesti til sængur um kvöldið villtist á þeim Skúla ráðherra og Clausen bílstjóra.
 Þess má geta að Skúli gekk ætíð berhöfðaður.
Skúli og Clausen komu að
Klausti forðum daga.
Það sem skeði á þessum stað
þykir skrýtin saga.

Clausen var með harðan hatt,
hress í bragði og glaður.
Af Skúla hvorki draup né datt,
hann dróst inn berhausaður.

Kom á fólkið hálfgert hik.
Hattinum Clausen lyfti
og eftir nokkur augnablik
urðu stjórnarskipti.

Þerna ein til þeirra gekk,
þeim hún sæti velur.
Með Clausen fór á besta bekk,
en bílstjórann í felur.

Oft hafa litlar þakkir þáð,
þeir sem harðast púla.
Köld eru jafnan konuráð.
Clausen steypti Skúla.

Þeir sem feta stjórnarstig
og stíga í hæstu raðir.
Svei mér verða að vara sig
að vera berhausaðir.

Ókunnugur undur létt
öðlast valdaljómann.
En engin heldur stöðu og stétt
með stjórnarhausinn tómann.