Starkaður á Stóruvöllum | Kvæða- og vísnasafn Árnesinga
Kvæða- og vísnasafn Árnesinga

Innskráning ritstjóra

Flokkar

Allt  (113)

Starkaður á Stóruvöllum

Fyrsta ljóðlína:Starkaður á Stóruvöllum
Heimild:Fésbók.
Viðm.ártal:≈ 0

Skýringar

Að kvæðinu stendur eldgömul þjóðsaga um Starkað frá Stóruvöllum í Bárðardal sem heldur suður Sprengisand að vetrarlagi á fund Þuríðar heitkonu sinnar í Þrándarholti í Gnúpverjahreppi. Sjá einnig vísuna ,,Angur og mein fyrir auðarrein".

Kvæðið er tekið af Fésbók en þangað komið úr kvæðabókinni ,,Sunnan Kaldbaks"

Starkaður á Stóruvöllum
stikar suður fjöll.
Til Þuríðar í Þrándarholti
þrá hans stendur öll.
Óttast hvergi veður,
óvætti né tröll.

Starkaður á Stóruvöllum
stígur sporin greitt.
Ungt og stælt er þrek hans,
æskublóðið heitt.
Af óraleiðum Sprengisands
ekki veit hann neitt.

Starkaður á Stóruvöllum
stefnir í Arnarfell.
Í bringu tekur Þjórsá,
bakka skara svell.
En blóðið aðeins hitaði
hver bylgja er um hann féll.

Kofi stendur opinn,
kuldastroka um dyr.
Blánóttina eina
bíður Starkaður þar kyrr.
Hann kemst þá í Þrándarholt
til Þuríðar fyrr.

Starkaður á Stóruvöllum
stiklar Illaver.
Furðar hann hve seinfarið
sunnan jökla er.
Gott er að eiga fagnafundi
framundan sér.

Starkaði á Stóruvöllum
stríkkar ennisrún.
Austan sér um Hágöng
fara óveðursbrún,
þéttingsganga er enn
fram í Þrándarholtstún.

Starkaður á Stóruvöllum
stikar Norðurleit.
Af Miklalæk og Dalsá
maðurinn tæpast veit,
svo er honum þráin
til Þuríðar heit.

Að Starkaði á Stóruvöllum
stórhríð geysta ber.
Vægðarlaus í fylgd með henni
vetrarnóttin fer.
Hvað sem líður voninni
er vissara að gá að sér.

Starkaður á Stóruvöllum
og stórhríð takast á.
Þrá hans eftir Þuríði
vill í Þrándarholt ná,
en hríðin má það hvorki
heyra né sjá.

Starkaður á Stóruvöllum
steini hopar að.
Ekki má sín þrá hans
við ofurefli það:
Við Starkaðsstein í Starkaðsveri
hlaut Starkaður dánarstað.

Þuríði í Þrándarholti
það í drauma bar,
að Starkaður á Stóruvöllum
stæði í dyrum þar
og leiddi hana harmsjónum
svo í hjarta skar.