Krákuvatn | Kvæða- og vísnasafn Árnesinga
Kvæða- og vísnasafn Árnesinga

Innskráning ritstjóra

Flokkar

Allt  (113)

Krákuvatn

Fyrsta ljóðlína:Hvern gæti núna gamla vatnið mitt
Viðm.ártal:≈ 1990–2010
Hvern gæti núna gamla vatnið mitt,
rennt grun í það hve fagurt ríki þitt
var áður þegar bylgju lita leir
að löndum færði blíður sunnanþeyr.

Og mýrin allt í kring þér féll í fang,
hún fann og þekkti hvern sinn undirgang.
Hvert lækjardrag og rás sem til þín rann
í rauðum hyljum þínum legstað fann.

Sem barn ég lagði lóðir fyrir ál
og löng var stundum veiðin mín og hál.
Enn man ég glöggt hvar veiðitanginn var,
oft veiddi mamma stórar bleikjur þar.

Þitt fuglalíf var fjölskrúðugt og glatt,
úr felum andamóðir synti hratt
og niður bakkann þutu oft til þín
úr þéttu grasi álút keldusvín

Ég man þann angurblíða svanasöng
í september um kvöldin rökkurlöng,
þá skari hvítra fugla þakti þig
og þeirra kórverk reis og hneig um mig.

En nú er vatn þitt horfið, botnin ber,
þar bára aldrei framar vaggar sér.
Í bæn þú starir upp til himins hljótt
með hola, blinda, þurra augnatóft.