Raunasaga | Kvæða- og vísnasafn Árnesinga
Kvæða- og vísnasafn Árnesinga

Innskráning ritstjóra

Flokkar

Allt  (113)

Raunasaga

Fyrsta ljóðlína:Sælt var úti, sólin glóði
Viðm.ártal:≈ 1960–2000
Sælt var úti, sólin glóði,
sveitin böðuð geislaflóði,
þrastapabbi stóð á streng.
Og hann söng þar fyrir frúna,
fagureygða, sparibúna.
Goggurinn hann gekk í fleng.

Skjótt í lofti skipast veður,
skýjafloti blámann treður,
hretið kom og hristi ból.
Gnúði fast um þröst á þræði,
þar var ekki framar næði.
Flaug hann burt og fór í skjól.

Úti nötrar auður strengur,
engin þrastapabbi lengur
hans ei framar heyrist rödd.
Fjaðradreif ég fann í leyni,
fót og væng hjá gráum steini.
Kisa mín er sæl og södd.