Brúðkaupsvísur Finsens | Kvæða- og vísnasafn Árnesinga
Kvæða- og vísnasafn Árnesinga

Innskráning ritstjóra

Flokkar

Allt  (113)

Brúðkaupsvísur Finsens

Fyrsta ljóðlína:Í skrautlegu háreistu húsi
Heimild:Árnesingur.
Viðm.ártal:≈ 1890–1910
Tímasetning:1900

Skýringar

Vigfús Finnsson var fæddur á Yrjum í Landsveit 1862. Oft kallaður Fúsi Finns. Var lengi í Haga í Gnúpverjahreppi, en bjó um tíma í Hólum á Rangárvöllum. Hann var einhleypur, en hafði um tíma hug á kvonbænum. Af því tilefni mun sr. Steindór hafa ort þetta gamankvæði og mun Fúsi hafa verið hrifinn af kvæðinu og höfundi þakklátur fyrir. 
Í skrautlegu háreistu húsi
með hanska og stígvélaskó
hann dansar svo fjörugt hann Fúsi
að fólkinu þykir um nóg.
Nei, Finsen hann Fúsi nú heitir
og Finsen hann giftist í dag
og Finsen nú fólkinu veitir
því Finsen hann bætti sinn hag.

Já, stúlku hann réð til sín ríka
með rautt og svo silkimjúkt hár
og fögur og fín er hún líka
og Finsen er glaður í ár.
Hún átti yfir sextíu sauði
og sjöhundruð krónur og jörð
en best þó af öllum þeim auði
var ánna og lambanna hjörð.

Því hundrað voru ærnar í haga
og hestar og kýr eftir því
en drjúgt má hann Finsen að draga
því drós lifir sællífi í.
Hún útgerðarmenn hefur átta,
sem allir fá hálfa vætt smjérs
en svo hún hafi þá sátta
hún sauði tvo lætur til hvers.

En Finsen það fullmikið telur
og finnst mega draga úr því,
hann verstu því sauðina velur,
sem varla er bitastætt í.
En fái það fljóðið að heyra
hann Finsen í háska er þá.
Og þar um ég þyl ekki meira,
með þjósti hún hann rekur frá.

Með Birni og Jóni hafði búið
og báða þá rekið frá sér.
Eða fegnir víst höfðu þeir flúið,
því fól hún og skapvargur er.
En fólkinu nóg vill hún veita,
en vinnu hún heimtar af því
og erfiði og súrasta sveita
nú setur hún bónda sinn í.

En hvað um það, hann er nú giftur
og hann fékk svo auðuga drós.
Og frjálsræði hann Finsen er sviftur,
hann fær ekki í pípuna ljós.
En samt er í geði hann glaður,
hann gull fékk og sauði og ær
og karlinn er kvongaður maður
með konunni hann jörðina fær.


Hann Finsen á krónur og konu
og kindur og jarðeign og bú
og síðan hann eignast mun sonu
með sinni hágöfugu frú
En dæturnar dansa um pallinn,
svo dillandi syngja þær lag
Nú kveikir í pípunni kallinn,
með konunni bætti hann sinn hag.


Athugagreinar