Kvæðið um Kjarnann | Kvæða- og vísnasafn Árnesinga
Kvæða- og vísnasafn Árnesinga

Innskráning ritstjóra

Flokkar

Allt  (113)

Kvæðið um Kjarnann

Fyrsta ljóðlína:Það sé ég að enn ertu kominn hér kunningjatetur
bls. 10 árg. 15.tbl. bls.343, apríl 1971
Viðm.ártal:≈ 1975
Tímasetning:1971

Skýringar

Um langt árabil framleiddi Áburðarverksmiðjan í Gufunesi köfnunarefnisáburðinn Kjarna, sem var í duftformi og varð ákaflega óvinsæll, einkum eftir að bændur komust í kynni við kornaðan áburð. Kjarninn var án kalkinnihalds og slíkur áburður hefur til langs tíma sýrandi áhrif á jarðveg, sem aftur var talið að minnkaði mótstöðu gagnvart kali.
Það sé ég að enn ertu kominn hér kunningjatetur.
Jú, kuflinn þinn græna með taðkvörn í skeifu ég þekki.
Á umbúðir þínar ég horfi og hroll að mér setur.
Ég held að þitt lævísa innræti framar ei blekki.

Því flötin, sem áður var græn, stendur nakin sem nárinn,
það nístir í súrmettan jarðveginn bletti og skalla.
Og það væri rafheilavinna að telja þau tárin,
sem túnræktarmaðurinn lætur í kalsvörðinn falla.

Úr dreifaragarminum rýkur þú ávalt sem aska,
sem eiturgosmökkur þú fýkur um ásjónu mína.
Og tímunum saman er ég að bisa og braska
við bölvaða helvítis andskotans kögglana þína.

Sé golan af hafi með raka, þó rigni hér ekki,
þú rennur í mauk eins og sykur í tebolla heitum.
- Já, kunningi gamli, ég verra en þig ekkert þekki
og þaðan af síður neitt skaðlegra efni ég veit um.

Þú hefur ei batnað, en hækkar þó stöðugt í verði,
svo hundruðin þúsunda kostar á túnið að bera.
Ég veit ekki náið, hver svona úr garði þig gerði,
en görótt og mislynd samt hlýtur þín ættkvísl að vera.

Ef værir þú dauður, ég skyldi með gleði þig grafa,
og græða svo arfa til minja á dysinni þinni.
Og feðurna þína og ömmurnar þínar og afa
ennfremur vil ég leggja þar hinsta sinni.