Kvæða- og vísnasafn Árnesinga

Söfn

Íslenska
Nynorsk
Esperanto

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur (cookies) eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Flokkar

Allt  (71)
Ljóðabréf  (1)
Tregaljóð  (1)

Afmæliskveðja til Gísla á Reykjum

Fyrsta ljóðlína:Vænt er veisluborð
Viðm.ártal:≈ 1950
Flokkur:Afmæliskvæði

Skýringar

Afmæliskveðan er til Gísla Jónssonar (1877-1960), bónda á Stóru-Reykjum í Flóa, á áttræðisafmæli hans 3.sept.1957. Gísli var hreppstjóri og oddviti Hraungerðishrepps um áratugaskeið. Hann var einnig, eins og fram kemur í bragnum sýslunefndarmaður í sýslunefnd Árnessýslu. Hann kom einnig að mörgum öðrum framfaramálum héraðsins, s.s. stofnun Flóaáveitu, Mjólkurbús Flóamanna og Kaupfélags Árnesinga.
Í síðari hluta bragsins er minnst sameiginlegs sýslunefndafundar Árnesinga og Rangæinga (og líklega V-Skaftfellinga) í Skógum. Um þann fund orti sr. Helgi vísurnar „Margur er hér sæll í sinni“ og „Björn vill ávallt meir og meir“. Sýslumaður Rangæinga var þá Björn Fr. Björnsson alþm.
Vænt er veisluborð
en vegleg orð.
Skal því skáld mæra
skörung inn kæra
þann er leiddi lýð
um langa tíð
hlaut ei hlut rýran
en hróður dýran

Var í æsku ör
með elju og fjör
Gísli vor garpur
í gerðum snarpur.
Varð því vísra spá
að víst mundi hann fá
forráð í Flóa
og frægð nóga.

Ungur ýtti úr vör
með augu snör,
drap með áhrínsorði
önglum frá borði.
Sást í sæferð
af sjókindamergð
gleypt Gísla beita
mátti galdur heita

Reis önnur öld
með orku og völd.
Vél rammelfd réri
rösklegum kneri.
Sukku net í sjó
og silfur dró
og gull úr græðishyljum
garpur á þiljum.

Heim hélt hans far
og hratt hann bar
hugur átthaga.
Hló um vordaga
fögur grasagnótt
en gullský um nótt.
Voru lömb við leiki
og ljómi um Reyki.

Reis blómlegt bú
við bóndans trú
á gróðrardísir góðar
og giftu þjóðar.
Húsfrú hlúði að byggð
af hollri tryggð.
Blessun óx með börnum
sem blik af stjörnum.

Loguðu lífsþrár
og lýsti um brár
eldur áhuga
ættjörð að duga.
Kvað hann kraft í lýð
á krepputíð,
mælti af málkynngi
á mannþingi.

Færði hann fríðri sveit
sín fyrirheit,
lét á teig leiða
lífsvatn heiða.
Réttur ríki í búð
að rækt skal hlúð.
Rök reisti að máli
jafn ráðsnjall Njáli.

Birtu ber hann enn
fyrir búandmenn.
Enn orðsnarpur
áttræður garpur.
Kátt er karls þel
og kann hann vel
saklausum glettum
og söng í réttum.

Sæmdur situr hann
og sífellt ann
frjósemd fjárlanda
og frjálsum anda.
Vinmargur víst
er hann vinur síst
svarthyggu-presta
og sauðfjárpesta.

Margt í minni kemst
þó man ég fremst
er saman við undum
á sýslufundum.
Las við lýðs þögn
sín lögmálsgögn
vísir inn vel dáði
í vegaráði.

Verk hans vitrast oss:
Vegir í kross,
vegir vegum dýrri
á vagnöld nýrri,
vegur um vallarbörð
og vota jörð,
búsældarlegur
hinn breiði vegur.

Man ég mót vort eitt.
Var mungát veitt.
Vér í höll hlógum
í heimboði í Skógum.
Öld var gleðigjörn.
Góðmáll var Björn
rekkur inn rómslyngi
í Rangárþingi.

Rann huggun harms
til hölda barms.
Gladdist Gísla sinni
með görpum inni
færði mjöður móð.
En mærði þjóð
fylkis frægð sanna
Flóamanna.

Logum laust í sál
yfir lögmanns skál.
Slíka brjóstbirtu
bændur mjög virtu.
Entist ölgnótt
uns andlitsrjótt
lyftist lið á fætur.
Lifði skammt nætur.

Kvöddu höldar hlýtt
og hétu að títt
skyldu ferðir farnar
á fund Bjarnar.
Bliki sló um ból
er brenna lét sól
eld á ísstöllum
yfir Eyjafjöllum.

Hló hetjulið
og hófust við
breiðir brúnagarðar
Bjarnar lögvarðar.
Héldust handtök löng
í höldaþröng.
Glaður gekk frá leikjum
Gísli á Reykjum.

Að austan með oss
og allt til Selfoss
flutti hann fyrirlestur
sem fagnaðsgestur
af lífi og sál.
Var það lengsta mál
er ort var með sanni
af einum manni.

Með öflgum ym
sem öldubrim
flóðu örvar orða
af ærnum forða.
Buldi um bónda og klerk
hans brýning sterk.
Brann af hugbáli
blik frá gómstáli.

Hress er önd hans enn
og árna menn
honum heilla stórra
og heimsdáða frjórra.
Metum fremdarmann
og muna þann
skörung skal vor sýsla.
Skál fyrir Gísla !