Kalt er í landi | Kvæða- og vísnasafn Árnesinga
Kvæða- og vísnasafn Árnesinga

Innskráning ritstjóra

Flokkar

Allt  (113)

Kalt er í landi

Fyrsta ljóðlína:Kalt er í landi, skefur eftir sköflum
Viðm.ártal:≈ 1900
Kalt er í landi, skefur eftir sköflum
skammt er á milli þess að komi él
og veldur því að illum vetrar öflum
er allt í móti því sem gengur vel.
Byggðin er undir þungu fanna fargi.
Það finnst ei neinn sem lyftir slíku bjargi.

Það dygði lítt þótt allir færu í einu
og orku neyttu að þoka vetri úr stað.
Hann virðir eigi mennskan mátt að neinu
og myndi halda velli fyrir það.
En hvað hann getur líka verið laginn
um litla smugu að komast inn í bæinn.

Ég held að þegar hrímar alla glugga
í húsum inni kreppi skóinn þrengst.
Það ber á allt svo breiðan dimman skugga
hve breytt frá því er sumarið var lengst.
Og lítið stoðar eldurinn frá arni
gegn öllum þessum næðingsstormi og hjarni.

Og dapurt væri ef annað þekktist eigi
þá yrði leikur tilverunnar grár.
En það er von á langtum lengri degi
svo ljósi tengjast kvöld og morgunsár.
Og það er von á austananda hlýjum
að ylja rót að sumargróðri nýjum.

Og strax má sjá að heldur er nú haldið
í horfið þegar kemur fram um jól.
Það skýrist birtan, þynnist þokutjaldið
og þú ert byrjuð hærri göngu, sól.
Sá finnur gleggst sem betri daga bíður
hvað bálför þinni um himingeiminn líður.

Þá sömu braut um háar himinleiðir
á hringferð lífsins fara muntu enn.
Hvað þú ert góð sem geislafaðminn breiðir,
til gleði og yndis kyssir allt í senn.
Og þess skal minnst, ef þyngja tekur sporið
að það eru eftir sælli dagar, vorið.