Kvæða- og vísnasafn Árnesinga

Söfn

Íslenska
Nynorsk
Esperanto

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur (cookies) eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Flokkar

Allt  (71)
Ljóðabréf  (1)
Tregaljóð  (1)

Nýju fötin keisarans

Fyrsta ljóðlína:Nú er margt um nýjungar
Viðm.ártal:≈ 1925
Nú er margt um nýjungar,
nokkuð góðar fréttirnar.
Bisa hingað burgeisar,
barónar og stórkarlar.

Auðinn sinn, hið æðsta hnoss
ætla þeir að færa oss,
milljónanna mikinn foss.
Máske fá í staðinn koss.

Allar borga útlendar
upp í hvelli skuldirnar.
Það er af sem áður var
að ekki fengust skildingar.

Nú skal rumska þessi þjóð,
þorskinn veiða í jötunmóð,
afla fjár og safna í sjóð,
selja vörur, ala upp stóð.

Allt skal gera í einum svip,
auka flotann, smíða skip,
færa í búið góðan grip,
gera ný hin leku hrip.

Allar fleytur út um sjó
elti síld og veiðiþró,
svo að vinna verði ei sljó
verksmiðjanna, en meiri en nóg.

Allt skal frjálst við önnur lönd,
engan þvinga höft né bönd.
Allra starfa ötul hönd,
upp til fjalla, nið’r að strönd.

Veita á land svo verði frjótt,
vinna málma dag og nótt.
alla virkja fossa fljótt,
fólki skapa nýjan þrótt.

Leggja vegi, byggja brýr,
bústofn vaxa, ær og kýr.
Íslensk gerast ævintýr,
öll í burtu kreppan flýr.

Upp skal rísa orkuver
allsstaðar á landi hér.
Láta starfa hvern einn hver,
hunang svo að drjúpi smjér.

Hitaveitu hefja þá,
sem hefur nokkkuð staðið á.
Upp um sveitir, út að sjá
ekki verður sælan smá.

Þá skal lifa þjóð ósmeyk,
þá skal enginn vaða reyk,
hver einn stafkarl koma á kreik,
kerlingarnar bregða á leik.

Þrjóti barlóms þrálátt mor,
þetta ætti að marka spor.
Ekki spara afl né þor,
„Elsku Sturla“ og Héðinn vor.

Er á enda sagan senn,
svona getur farið enn,
gæfan að oss gengið tvenn,
gott er að komi slíkir menn.