Kvæða- og vísnasafn Árnesinga

Söfn

Íslenska
Nynorsk
Esperanto

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur (cookies) eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Flokkar

Allt  (71)
Ljóðabréf  (1)
Tregaljóð  (1)

Bolabragur

Fyrsta ljóðlína:Kolsholtsfeðgar alikálf í eldi
Viðm.ártal:≈ 1975
Kolsholtsfeðgar alikálf í eldi
áttu og dáðust að á hverju kveldi.
Birti yfir beggja svip
ef bar á tungu þennann grip.
Með beljunum í beitivelli ganga
boli skyldi sumardaga langa.

Ekki vild’ann una þar til rétta
ætlaði sér betri hlut en þetta.
Útþráin í brjósti bjó,
bolann seiddi, teymdi, dró.
Á sólmánuði setti hann upp stýri
og sentist burt í leit að ævintýri.

Búnir voru í Bæjarhrepp að þol’ann
bölvandi í túnum Kolsholtsbolann.
Girðingar í slitrur sleit
slyngur líkt og fjallageit.
Mönnum þótt’ann meinlegasti gripur
makalaus og halarófulipur.

Klögumálin komu í pósti og síma
að Kolsholti um þennann sumartíma.
Nautið ærðist allsstaðar
ekki nokkur furða var
hreppstjórinn þótt hleypti ygglibrúnum
og heimtaði það burt úr sínum túnum.

Ekki dugðu hundar eða hestar
og hendur urðu lítt á gripnum festar.
Til átaka við óbermið
æddi á jeppa valið lið.
Kæmi nærri haus og halarófan
heldur betur klæjaði í lófann.

Líkt og elding yfir túnið bar hann
eina ráðið fannst þeim vera að snar’ann.
Æstir klifruðu upp á „húdd“
eins og þeir í „Hollývúdd“.
Á ofsahraða óku svo um velli
og ætluðu að ná’onum í hvelli.

Tuddinn hljóp og sinnti engum sveigjum,
en Siggi ók í mörgum kröppum beygjum.
Í hamagangi hæstum þá
hlutu þeir að rekast á.
Svo aldrei framar gengi þeim úr greipum,
greyið bundu afar sterkum reipum.

Þrjótinn sendu þeir í banaklefa
þetta kunnu ekki að fyrirgefa.
Nú er lokið þessum leik
lífið tapað, orðið steik
nautið frítt á borgalýðsins borði,
byggðaprýðin veislumatarforði.


Athugagreinar

Boli slapp frá vesturbæjarfeðgum í Kolsholti, Guðjóni og Sigurði Gíslasyni.