Páls drápa Tangakóngs | Kvæða- og vísnasafn Árnesinga
Kvæða- og vísnasafn Árnesinga

Innskráning ritstjóra

Flokkar

Allt  (113)

Páls drápa Tangakóngs

Fyrsta ljóðlína:Ennþá er ósvikinn kraftur
Viðm.ártal:≈ 1950
Ennþá er ósvikinn kraftur
í íslensku máli,
hrökkva hurðir af hjörum
er heyrist í Páli.

Honum er úti á hlaði
heilsað af frúnum
í Hreppnum, en hestar látnir
á haga í túnum.

Þær bjóða í bestu stofu
og beina þar veita
því gangnamaður er góður
gestur til sveita.

Eftir ágætar kveðjur
til öræfa vendir
tekur stefnu á Tangann
- sem toppurinn bendir.

Hefur ’ann marga hildi
háð þar í giljum,
þeyst um þverbrattar hlíðar
í þoku og byljum.

Galvaskar fjallafálur
fælir úr klungri
þær skulu ei fá að farast
á fjalli úr hungri.

Við hugleysi ekki hættir
né hiki í ráðum,
- efalaust ríður hann yfir
Illaver bráðum.

Löngum er Páll hjá lýði
lífið og sálin
eigi menn orðastað saman
um afréttarmálin.

Í Grímsstöðum oft er gaman
á gangnadagskvöldum
heyrist þá löngum í húmi
hlegið í tjöldum.

Fegrast á slíkum fundum
fjallmannakjörin.
Páll á þar hæstan hlátur
og hugstæðust svörin.

Lærist margt læknisráðið
í lífsreynsluskóla.
Því oft er úrsvöl að morgni
öræfagjóla.

Kogara út í kaffið
kýs hann þá morgnar,
eyðir ’ann kveisu og kvefi
og karlinum ornar.

Þó hefði ’ann sálarhaminn
úr hertasta stáli,
rennur ævin á enda
einnig hjá Páli.

Þá dauði að endingu eyðir
af andanum böndin,
reikar hann aftur ungur
um afréttarlöndin.

Þeir sem þá Grímsstaði gista
um göngur í tjöldum,
hugsa til Páls í hljóði
á haustmyrkum kvöldum.


Athugagreinar

Páll Árnason (1890-1975) f. á Hurðarbaki í Flóa, bóndi á Litlu-Reykjum. Hann var bróðir Magnúsar í Flögu og báðir fóru ungir til fjalls á Flóamannaafrétti og héldu því til elli. Fóru þeir mörg haust í fjallsafn, eftirsafn og eftirleitir og voru þá fjallkóngar.
Lengst var Páll Tangakóngur í fjallsafni. Tanginn afmarkast í norðri og vestri af Stóru-Laxá en Skillandsá að framan.
Á þessum vef er drápan „Fjalla hyllum foringjann“ eftir Ágúst Þorvaldsson sem er ort til Magnúsar, bróður Páls.