Rökkurþula | Kvæða- og vísnasafn Árnesinga
Kvæða- og vísnasafn Árnesinga

Innskráning ritstjóra

Flokkar

Allt  (113)

Rökkurþula

Fyrsta ljóðlína:Nú er úti nóttin köld
Viðm.ártal:≈ 1950
Nú er úti nóttin köld
nú er hrímgrátt vetrarkvöld
hefur ísinn ennþá völd
á okkar kæra landi.
Veldur ennþá voðalegu grandi.
Þá er helsta huggun góð
að hlýja sér við sögu og ljóð
heyra margt um hal og fljóð
í heimi sagnafríðum.
Lesa blóm í fögrum fjallahlíðum.
Hlusta á fagran svanasöng
sumarkvöldin blíð og löng,
skarta fögur skógargöng
skrautklæðunum sínum.
Yndislegt er margt í ævintýrum mínum.
Dóttir karls í koti þá
kannske líka fer á stjá
kóngssoninn hún kann að fá
kæn að vinna þrautir.
Ekki munu beinar allar brautir.
Sit ég oft við sagna glóð
sagan kann að verma blóð
hugann kæta hetjuljóð
hreystin aldrei svíkur.
Ei frá réttu afreksmaður víkur.
Hér er líka hyldjúp sorg
hún er ekki færð á torg
hulin oft í hugarborg,
hún er geymd í leynum.
Mærin harmar einn af yngissveinum.
Allt er gott sem endar vel
upp mun birta sérhvert él.
Ég við söng og sögu dvel.
Síðan kemur vorið.
Verður öllu aftur létt um sporið.