Kvæða- og vísnasafn Árnesinga

Söfn

Íslenska
Nynorsk
Esperanto

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur (cookies) eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Flokkar

Allt  (71)
Ljóðabréf  (1)
Tregaljóð  (1)

Þakkarbréf

Fyrsta ljóðlína:Þakkir kærar þér ég færi
Viðm.ártal:
Flokkur:Ljóðabréf

Skýringar

Símon Ólafsson bóndi á Butru orti rímur af Hallfreði vandræðaskáldi og lánaði þær Helgu Pálsdóttur, þá vinnukonu í Teigi. Þegar hún skilaði rímunum fylgdi ljóðabréf þetta með.
Þakkir kærar þér ég færi
og það til æru mest ég tel
að ljóða skæru list frábæra
lést mitt næra hugarþel.

Veröld fláa vini fáa
vill mér ljá sem maklegt er.
því aldrei þráa æru smáa
eg hana nái dýrka hér.

Elska seiminn ei né heiminn
af honum keiminn lasta finn
en oft mig dreymir æðri geiminn
og þar sveimar hugurinn.

Í veröldinni varla linnir
að væta kinnar harmtárin.
Hún Kolfinna mig á minnir
margt sem tvinnar örlögin.

Ástin kvenna eins og hennar
enn má kenna fróns á grund
þó fleiri spenni fleina hlenna
af fjöri brenna rétt um stund.

Finnst best henta fætur mennta
fylgir renta slíku há
en ef það lenti allt á prenti
ekki pent það sýndist þá.

Óska ég styggðir, last og lygðir
lands frá byggðum snúi fljótt.
En aukist dyggðir, einnig tryggðir
angurs hryggð frá hverfi drótt.

Eyðist grand á Ísalandi
allra handa hverfi tál.
En kærleiksvandað bræðrabandið
blessun andi í hverja sál.

Á óblíðum ævitíðum
oft stórhríðar reyndir kaf
en þér hugprýði í hörðu stríði
herrans fríði kraftur gaf.

Ósk mín þessi er í versi
öll þá skessin mæða dvín.
Í göngu og sessi guð þig hressi
og göfgar blessi hærur þín.

Þá hættir fróma harpan óma
hinst er sóma fölnar brá
sál þín rómi sigurhljóma
sjálfum ljómi Guði hjá.

Aldir tíu og aðrar níu
ártal því ei bresta kann
og tugi fría í talna stíu
tvenna óhlýja þrettándann.