Ríma um bændur í Hjallasókn 1882–1892 | Kvæða- og vísnasafn Árnesinga
Kvæða- og vísnasafn Árnesinga

Innskráning ritstjóra

Flokkar

Allt  (113)

Ríma um bændur í Hjallasókn 1882–1892

Fyrsta ljóðlína:Fyrr en hverf ég heimi frá
Viðm.ártal:

Skýringar

Kvæði þetta hefur höfundur sent systur sinni Pálínu Guðmundsdóttur húsfreyju í Riftúni í Ölfusi.
Fyrr en hverf ég heimi frá
hraða mínum orðum.
Sjötugur þér sendi skrá
um sveitungana forðum.

Samdi bækur, söguljóð,
sumir ortu stökur.
Kveðnar rímur, lesin ljóð
langar kvölda vökur.
 
Svo ég einhver nefni nöfn,
nefndur heiðursmaður,
þá bjó Jón i Þorlákshöfn,
þótti stórhugaður.
 
Fiskisæll er sjónum á,
með söngrödd viðurkennda.
Jafnframt nytjar jörðu sá
Jón á Hlíðarenda.

Magnús stefnu frjálsa fann,
fær að stjórna hjúi.
Bjó í Litla-Landi hann,
lengi vanur búi.
 
Góðviljaður granni sá,
Guðmundur með prýði.
Breiða- ríkti bólstað á
best sem kynnist lýði.
 
Á Vindheimum aldraður
átti góða drengi.
Sonur Eiríks, Sæmundur
sinnti búi lengi.

Hraunshjáleigu  hirðir þá
heima fyrir glaður,
fróður starfi sinnti sá,
Símon, ritfær maður.
 
Átti landið út að sjó,
eign og hrausta drengi.
Guðrún hét, á Hrauni bjó
hugprúð kona lengi.

Vinsæll maður vann með dyggð,
vina afkomu tryggði.
Hafði á  Eystra-Hrauni byggð
Halldór Böðvars niðji.
 
Hraunból reisti hugprúður,
hafði fátt að gjaldi,
Eyjólfssonur  Ólafur,
ævibústað  valdi.

Er frá Grímslæk ættaður,
átti starf með hjúi.
Þar bjó Helga og Þorleifur,
þjóðholl sínu búi.
 
Var af mörgum velþekktur,
vanur staupagleði.
Eyjólfssonur Eyjólfur,
Eystri-Grímslæk réði.
 
Hannes fór af Hjalla grund
heldur súr í broti.
Torfbæ reisti, tryggð í  lund,
Tjarnar- bjó í koti.
 
Freysteinn út frá elli dó,
allir hljóta að falla.
Átti konu og allvel bjó
árin mörg á Hjalla.
 
Jón með sína festar frú
fór af túnum grænum.
Helgasonar, hafði bú
á Hjalla, í austurbænum.
 
Bjó á  Læk með bjarta von,
brást þó hörpustrengur,
Halldór mildur Magnússon,
metinn góður drengur.
 
Laginn mjög að verki var
vann með anda glöðum.
Magnús sonur Símonar,
sat á Bjarnastöðum.
 
Gekk um bú með góða sjón,
gleði tók að arfi,
á Þorgrímsstöðum þá bjó Jón,
þótti órýr í starfi.
 
Fús til verka, fjölhæfur,
fjarri sálarmóki,
oft við smíði Erlendur,
átti bú í Króki.
 
Skjótráður við skerjalón,
skipi hélt á floti.
Burðarmikill  bóndi Jón.
bjó í Móakoti.
 
Egill sótti fiskifund
fjarri ráðaþroti.
Formannslegur gekk um grund,
Gerða- bjó í koti.

Frjáls að ráði fór á sjó,
fiskinn lét í stakka.
Ungur Gísla arfi bjó
Eyjólfur á Bakka.
 
Jóns var höndin helst liðtæk,
heima rækta börðin.
Fór af Bakka, flutti að Læk,
fengsæl þótti jörðin.
 
Orfið reiddi upp með ljá,
oft til verka hraður,
í Riftúni Þórður þá
þótti hraustur maður.
 
Bærinn stendur brekku hjá,
byggð við hlíð í röðum.
Gísli bjó og Eydís á,
Ytri-Þóroddstöðum.

Vanur starfi vann með ró
vel að heyjum grænum,
annars vegar Einar bjó
Eiríksson í  bænum.
 
Risti torf með traustum ljá,
tyrfði gras af engi.
Magnús hirti Þurá þá
þarfur nokkuð lengi.
 
Flesu smíði vanur var,
vini sjaldan styggði.
Einar sonur Einars þar
Eystri-Þurá byggði.
 
Þarfur bústjórn þekkti sá,
því gekk allt að vonum,
bjó á eystri bænum þá
Björn á móti honum.
 
Fleiri ekki færi á skrá,
flestir kjósa næði,
þó vel mætti minnast á,
marga í þessu kvæði.

Blómgist Ölfuss byggð indæl
ber þú kveðju mína.
Vertu þúsund sinnum sæl
systir mín Pálína.