Hauskúpubragur | Kvæða- og vísnasafn Árnesinga
Kvæða- og vísnasafn Árnesinga

Innskráning ritstjóra

Flokkar

Allt  (113)

Hauskúpubragur

Fyrsta ljóðlína:Gaman væri að reyna að ráða
Viðm.ártal:≈ 1930–1940

Skýringar

Snorri Hjartarson skáld sat einn vetur á Stóra-Núpi, skrifaði skáldsögu, safnaði Hallgrímsskeggi, reykti sígarettur og notaði sem öskubakka hauskúpubrot frá Skeljastöðum í Þjórsárdal.
Gaman væri að reyna að ráða
rúnir þínar gamla bein
sjá þar þína sögu skráða
sögu er bók ei geymir nein
Sögu er engin setti í letur
sögu er engin greina má
drætti þá er dimmur vetur
dregið hefur skallann á

Varstu ekki einu sinni
ungur hnakki í Þjórsárdal
hulinn hvítu mjúku skinni
hreint sem snjór í fjallasal
Bjó þar inni svefninn sætur
sálin ung og hugsun smá
dreymdi hljótt um daga og nætur
drauma er engin ráða má

Rannst þú upp sem runnur fríður
röskur fagur hár og stór
litarbjartur, lokkasíður
logar brunnu í heilakór
Skein þar inni ástin, trúin
íturhrein og göfug lund
þegar fórst þú björtum búin
bláum hjálmi á vígafund

Sem þá hverfur sól af klettum
sest að mánabirtan köld
Loksins hvarf af lokkum þéttum
litur skær við ævikvöld
Hárin blöktu hvít á kalli
hurfu loks að öllu þó
eftir sat þar auður skalli
útaf seinast valt og dó

Varstu svo í grafreit geymdur
grafinn niður álnir þrjár
Ofanjarðar öllum gleymdur
engin veit um hvað mörg ár
ausin mold sem öll er rokin
uppí dagsljós komin nú
er nú týndur, eyddur, fokinn
allur karlinn nema þú

Svona gekk það gamli hnakki
gleggra ég ei lýsa kann
Nú ertu orðinn öskubakki
undarleg er tilveran
Þar sem ljósir lokkar blöktu
líkir gulli herðum að
hart er borð und beini nöktu
brunnin aska í heilastað

Enn þú horfir ellibleikur
upp í loftin björt og há
þegar léttur ljósblár reykur
liðast Hallgrímsskeggi frá
Meðan skáldið sögu semur
sígarettu vermt af yl
ef til vill þá ofan kemur
andi þinn að hjálpa til.


Athugagreinar