Á Selfossi | Kvæða- og vísnasafn Árnesinga
Kvæða- og vísnasafn Árnesinga

Innskráning ritstjóra

Flokkar

Allt  (113)

Á Selfossi

Fyrsta ljóðlína:Frá Lómagnúpi og vestur til Hellisheiðar
Höfundur:Árni G. Eylands
Viðm.ártal:≈ 0
Tímasetning:1958

Skýringar

Ort í tilefni af 50 ára afmæli Búnaðarsambands Suðurlands, árið 1958.
Frá Lómagnúpi og vestur til Hellisheiðar
vér horfum í dag yfir lendur og gróin tún,
aldregi fyrr voru Suðurlands byggðir svo breiðar,
svo bjart að líta í austur frá Kambabrún.
Nú blasa við hvarvetna vonir og efndir eiðar,
er æskan dregur fána síns lands að hún
og vort er að þakka himnaföður á hæðum,
að hann gaf oss landið með öllum þess kynjum og gæðum.

En þakka skal einnig brimið og brunasanda
og bálstorkuhraunin og öræfin jöklavíð,
í háfjalla skjóli á framtíðarstríðið að standa
og starfið er mannbætir sveitanna bjartsýna lýð.
Það gleður vor hjörtu og geðið að ennþá er vanda
í glímu að leysa, að vor bíður sóknarhríð.
Vér erfðum og námum ei Suðurland til að sofa,
að sigrinum unnum skal manninn og verkin hans lofa.

Í dag er vor skylda feðranna og mæðranna að minnast
er mörkuðu stefnu og aldrei spöruðu tök,
er áttu þá hugsjón að hér myndi sigur vinnast
og herðarnar réttast og þjökuð og lömuð bök.
Þau verk skal enginn láta sér fátt um finnast
né fátækleg kalla bændasögunnar rök.
Það er vort að greina vörðurnar sem þeir hlóðu
og virða hvernig þeir leið móti dögun tróðu.

Það stórt er að minnast manna er fyrstu brúna
á móðuna lögðu og sigruðu jökulstraum,
þeir áttu vonina, viljan og ættartrúna,
þótt verkana svið reyndist haldið um árar og taum.
Vér horfum í dag á strengina stáli búna,
en stingum við fótum og sannindum veitum gaum,
að gamla brúin var var brú milli kynslóða og alda,
sú brúargerð stærri og meiri en kotungar valda.

Í 50 ár hefur verið að verkunum staðið
og vegað og ræktað og stækkaðar hlöður og tröð,
í skemmu er traktor og bíllinn brunar í hlaðið
en börn heyra sagnir um fornar götur og vöð.
Er vélarnar bylta um sverði og tæta taðið
að tökunum stendur nú æskusveit hress og glöð.
Við orku frá Soginu góð verður gangan í fjósið
því gegningar auðvelda hreyflar og rafurmagnsljósið.

Með gröfum er ræst svo mýrarnar verða að velli
og víðlendum túnum, í Mýrdal, um Flóa og Skeið,
það takast á ýtur við Þverá hjá Þórólfsfelli
með þolgóðum tökum og ákveða fljótinu leið,
en kornið þroskast til mjölva í Miklaholtshelli,
svo margt er að þakka, hver gæfa vor allra beið
um héruðin breiðu frá Selvogi austur á Síðu
við sóknir og varnir um landnámin fögru og víðu.

En hér bíður ekkert til vægðar og vettlingataka
þó vel hafi unnist og miklum áfanga náð,
vor leið er sem fyrri á brattan, en ekki til baka
og bráðum skal meira og víðar til uppskeru sáð,
því enn bíða sandar og heiðarlönd ræktunar-raka,
um randir og hraun verður skóganna barátta háð.
Vort Búnaðarsamband á óráðnar ótal gátur
og óhirtar fjölmargar kjarngóðar töðusátur.

Hve hátt sem vér stefnum og haldgóðum rökum vér beitum
oss hollt er að minnast og láta ei falla í þögn,
þó margt sé til bata er mest vert að drengir vér heitum
í málum og störfum í hversdagsins athöfn og sögn.
Er bændurnir plægja og herfa í sunnlenskum sveitum
hvert sumar og treysta á vaknandi gróðursins mögn,
mun gæfan því valda að manngildi mannanna hækkar
er moldin ber ávöxt og túnið og garðurin stækkar.

Í dag reynist hamingju-bjart yfir byggðunum öllum
og bændanna orðræða hress og með gleðinnar brag,
um gróður sem lifnar á Landi og Rangárvöllum
og Leiðvelli þar sem var örfoka melur og flag.
-Mín kveðja er skammhent af strönd undir framandi fjöllum
og fátæktar rislág er kosti mig brestur í dag
að vera hjá yður, en trú mín og bæn er í blænum
hjá blessuðum stráunum ungum og framtíðar-grænum.


Athugagreinar