Eg vil duga | Kvæða- og vísnasafn Árnesinga
Kvæða- og vísnasafn Árnesinga

Innskráning ritstjóra

Flokkar

Allt  (113)

Eg vil duga

Fyrsta ljóðlína:Langa nóttin
Viðm.ártal:≈ 1920–1940
Langa nóttin
lamar þróttinn,
letja viljan kvíðinn, óttinn.
Fósturdætur
daprar nætur
nísta sárar hjartarætur.

Þeir sem dreyma
daginn heima
dauðaþrána í brjósti geyma,
þora að trúa
þrá að fljúga
þraut er í dimmri holu að búa.

Þó mér svíði,
þó ég líði
þröng í mínu snigilshýði,
vil ég freista
af veikum neista
varðblys tendra, gæfu treysta.

Eg vil duga,
yfirbuga
allt sem leggst mér þyngst á huga,
bíða dagsins
birtuvaxins
bæta hrjóstur hjartalagsins.

Eg vil starfa
allt til þarfa
ævidags til hinstu hvarfa,
þroskans leita
ljósi veita
lengst til stranda - efst til sveita.